Fjármálaeftirlitið hefur kannað hvort vextir á skuldabréfum og íbúðalánum hafi þróast hjá íslenskum bankastofnunum í takt við stýrivaxtabreytingar Seðlabankans að því er segir á vef stofnunarinnar.

Hóf Fjármálaeftirlitið athugunina á því hvort breytingar á stýrivöxtum Seðlabankans hafi haft áhrif á þróun útlánavaxta hjá viðskiptabönkunum í haust, með það að markmiði að athuga hvort eitthvað í starfsemi bankanna væri að brjóta í bága við lög um viðskiptahætti.

Litið var aftur til ársins 2014, og allt tímabilið frá 1. júlí það ár til 1. júlí í ár skoðað, en til athugunar voru Arion banki, Íslandsbanki, Landsbanki, Sparisjóður Austurlands og Sparisjóður Strandamanna.

Niðurstaða eftirlitsins er að í nær öllum tilvikum hafi óverðtryggðir kjörvextir á skuldabréfum og breytilegir vextir á óverðtryggðum íbúðalánum verið til jafns við breytingar á stýrivöxtum Seðlabanka Íslands.