Þótt ekki hafi verið gerð nákvæm greining á kynjahlutföllum á meðal atvinnurekenda á Íslandi segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda (FA), að staðan á meðal aðildarfélaga félagsins sé ekki ósvipuð stöðunni í atvinnulífinu almennt. Hann segir þó að af stærri fyrirtækjum í FA sé hlutfall kvenforstjóra nokkuð hærra en almennt gengur og gerist. „Ef við tökum stór fyrirtæki hér innandyra eins og Nova, Atlantsolíu, ÍSAM, Lýsi og Icepharma þar til fyrir nokkrum dögum, þá eru það allt fyrirtæki sem hafa forstjóra sem eru konur,“ segir Ólafur.

Ólafur bætir því við að FA hafi hingað til fyrst og fremst efnt til fundarhalda til að reyna að vekja félagsmenn sína til vakningar um jafnréttismálin en hann segir þau eiga ríkan þátt í samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja.

„Þetta er að sjálfsögðu hluti af samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja að haga sinni starfsmannastefnu þannig að konur og karlar hafi sömu tækifærin,“ segir Ólafur.

Ítarlegt viðtal við Ólaf er í Áhrifakonum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .