Framkvæmdastjórar hjá Sjóvá eru þrír eftir skipulagsbreytingar sem kynntar voru 24. ágúst síðastliðinn. Framkvæmdastjórnin er því skipuð af Hermanni Björnssyni, forstjóra og framkvæmdastjórunum Auði Daníelsdóttur, Elínu Þórunni Eiríksdóttur og Ólafi Njáli Sigurðssyni að því er kemur fram í tilkynningu frá Sjóvá.

Haft er eftir Hermanni Björnssyni, forstjóra Sjóva í tilkynningunni: „Þessar breytingar eru liður í að einfalda og straumlínulaga stjórnarskipulagið hjá Sjóvá enn frekar. Fimm sviðum hefur verið fækkað niður í þrjú og ábyrgð hvers framkvæmdastjóra aukin um leið, þannig fækkar framkvæmdastjórum jafnframt um tvo,“ segir forstjórinn.

„Nýtt skipulag grundvallast þannig fyrst og fremst á þeim mikla mannauði sem við hjá Sjóvá búum að. Með því að fela reynslumiklu fólki ný verkefni getur þekking flætt enn betur á milli starfsstöðva og í því felast margvísleg tækifæri,“ bætir hann við.