Tvær konur hafa verið kynntar til leiks í áhrifastöður í Sádi-arabísku viðskiptalífi. Annars vegar í Sádi-arabísku kauphöllinni og hins vegar í stórum banka. Þetta kemur fram í frétt AFP fréttaveitunnar .

Annars vegar réð Samba Financial Group Rania Mahmoud Nashar sem bankastjóra í gær. Hins vegar er Sarah al-Suhaimi nýr stjórnarformaður Tadawul Sádi-arabísku kauphallarinnar. Tilkynnt var um ráðningu al-Suhaimi fyrir um þremur dögum.

Ekki er langt síðan að konur í Sádi-Arabíu þurftu samþykki forráðamanns til þess að geta unnið. Þrátt fyrir að þeim reglum hefur nú verið aflétt segja baráttuhópar í landinu að margir vinnuveitendur kalli samt sem áður eftir samþykki.

Í tilkynningu Samba bankans til kauphallarinnar í Sádi-arabíu, segir að Nashar hafi unnið í 20 ár hjá bankanum og hafi fylgt svokölluðu „framkvæmdaferli“ (e. executive program) hjá bankanum.

Sarah al-Suhaimi er einnig núverandi forstjóri NCB Capital, sem er dótturfyrirtæki National Commercial Bank. al-Suhaimi heldur starfi sínu þar á meðan hún stýrir kauphöllinni. Tadawul er stærsta kauphöllin sem finnst meðal ríkja Arabíuskagans.

Nýverið hefur verið hrundið af stað herferð til þess að auka atvinnuþátttöku kvenna vegna lækkunar olíuverðs. Atvinnuleysi kvenna í Sádí-Arabíu mældist 34,5 prósent á þriðja ársfjórðungi í fyrra samanborið við 5,7 prósent hjá karlmönnum. Fyrir árið 2020 vill ríkisstjórnin í Sádí-Arabíu ná hlutdeild kvenna á vinnumarkaði úr 23 prósentum upp í 28 prósent.