Hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja með 50 launþega eða fleiri árið 2018 var 33,5% og hefur aldrei verið hærra, samkvæmt frétt á vef Hagstofunnar.

Hlutfallið var aðeins 12,7% árið 2007, og 9,5% árið 1999. Þá voru konur 26,2% stjórnarmanna fyrirtækja sem greiða laun og skráð eru í hlutafélagaskrá í lok árs 2018.

Árið 2010 voru samþykkt lög um að hlutfall hvors kyns skyldi vera yfir 40% í stjórnum fyrirtækja með fleiri en 50 starfsmenn, og tóku þau að fullu gildi í september 2013. Hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja með færri en 50 launþega stendur nánast í stað milli ára, 25,9%.

Hlutfall kvenna í stöðu framkvæmdastjóra var 22,7% og hækkar lítillega milli ára, en það hefur aukist hægt og rólega allt frá 1999. Hlutfall kvenna í stöðu stjórnarformanna var 24,1% í lok árs 2018.