Fjárfestingabankinn Kvika og hópur einkafjárfesta keyptu Kortaþjónustuna í síðustu viku á aðeins eina krónu að því er kemur fram í Markaðnum í dag. Meðal fjárfestanna eru þau Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir og Guðmundur Örn Þórðarson, stórir hluthafar í Kviku og Vís en auk þeirra eru bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir hluti af fjárfestateyminu. Samhliða kaupunum lagði fjárfestahópurinn Kortaþjónustunni til 1.500 milljónir í nýtt hlutafé.

Kortaþjónustan hafði orðið fyrir miklu áfalli í kjölfar þess að breska flugfélagið Monarch fyrir í greiðslustöðvun í byrjun október. Félagið hafði tekið á sig töluverða áhættu vegna fjármuna sem viðskiptavinir flugfélagins höfðu greitt fyrir flugferðir sem síðar varð ekkert af en í þeim tilfellum var Kortaþjónustan í ábyrgð og lentu endurgreiðslur farmiðanna á henni.

Að því er kemur fram í Markaðnum var Kortaþjónustan í viðræðum um sölu hennar til ástralsks fjárfestingasjóðs fyrir um 80 milljónir evra, jafnvirði um 10 milljarða króna, þegar Monarch fór í greiðsluþrot. Í kjölfarið leystust viðræðurnar upp enda ljóst að staða Kortaþjónustunnar var mikið breytt.

Fráfarandi eigendur Kortaþjónustunnar eru hjónin Jóhannes Ingi Kolbeinsson og Andrea Kristín Jónsdóttir auk Gunnars M. Gunnarssonar.