Í ágúst nam erlend greiðslukortavelta 30,6 milljörðum króna samanborið við 22,2 milljarða í sama mánuði í fyrra. Þetta þýðir að það sé tæplega 38% aukning milli ára. Það sem af er ári hafa erlendir ferðamenn greitt tæpa 162 milljörðum með kortum sínum en í fyrra var erlend greiðslukortavelta allt árið 154,4 milljarðar. Kortavelta á tímabilinu janúar til ágúst því um 5% meiri en allt árið í fyrra. Þessar tölur eru teknar saman af Rannsóknarsetri verslunarinnar , sem haldið er úti af Háskólanum á Bifröst.

Vöxtur í öllum útgjaldaliðum

Vöxtur hefur verið í öllum útgjaldaliðum milli ára. Til að mynda þá eyddu erlendir ferðamenn tæpum 6,5 milljörðum í gistingu en það er veltuhæsti flokkurinn í kortaveltu ferðamanna. Upphæðin er 32,3% hærri en í ágúst 2015 þegar erlendir ferðamenn greiddur 4,9 milljarða.

„Enn er mikill vöxtur í farþegaflutningum með flugi en erlend greiðslukortavelta til flugfélaga jókst um 128% frá fyrra ári. Erlendir aðilar greiddu í ágústmánuði 3,1 milljarða fyrir flugferðir samanborið við tæpan 1,4 milljarð í fyrra. Ekki fer öll starfsemi innlendra flugfélaga fram á Íslandi og því stafar hluti greiðslukortaveltu þeirra af ferðalögum til annarra áfangastaða en Íslands“ segir í frétt Rannsóknarseturs verslunarinnar.

Einnig varð um 57% aukning á milli ára í flokknum ýmis ferðaþjónusta en sá flokkur inniheldur meðal annars ferðaskrifstofur og skipulagðar ferðir ferðaþjónustufyrirtækja.

Erlendir ferðamenn greiddu 3,5 milljarða á veitingahúsum í ágúst 2016 eða 29,7% meira en á sama tíma í fyrra.

Í júlí komu ríflega 241 þúsund ferðamenn til landsins umLeifsstöð samkvæmt talningu Ferðamálastofu, 27,5% fleiri en í sama mánuði í fyrra. Aldrei hafa fleiri komið í einum mánuði.