Paul Manafort, kosningastjóri Donalds Trump í forsetakosningunum 2016, hefur verið formlega ákærður fyrir skatt- og bankasvik af sérstökum saksóknara í máli afskipta rússa af kosningunum, Robert Mueller.

Skipun kviðdóms mun hefjast á þriðjudag, og marka upphaf fyrstu réttarhalda vegna rannsóknar Mueller á Rússamálinu. Vinna Manafort fyrir þáverandi forseta Úkraínu og mikinn stuðningsmann Pútíns Rússlandsforseta, Viktor Yanukovych, vakti grunsemdir Mueller.

Manafort, sem var kosningastjóri Trump í 3 mánuði, er sem áður sagði sakaður um skatt- og bankasvik, en verði hann sakfelldur gæti hann átt yfir höfði sér lífstíðarfangelsi. Það væru ansi mikil viðbrigði fyrir mann sem hefur lengi unnið fyrir og verið í innsta hring Repúblíkana.

Verði hann hinsvegar sýknaður, myndi það skaða trúverðugleika Mueller og rannsóknar hans, en Trump tjáir sig nánast daglega um rannsóknina, og hefur meðal annars kallað hana nornaveiðar .