Í náinni framtíð verður notkun tækja og tóla samofin máltækni. Því fylgir að tungumál verða sífellt meira notuð í samskiptum við tæki. En það er bara eitt vandamál. Tölvur og hugbúnaður skilja ekki íslensku. Gervigreind og máltækni í heiminum er að þróast með ógnarhraða. Hætta er á því að Ísland sitji eftir og að íslenskan hörfi fyrir öðrum tungumálum í daglegu lífi fólks vegna tæknibreytinga.

Sem lið í að tryggja að íslenska verði nothæfur valkostur í stafrænum heimi hefur mennta- og menningarmálaráðherra kynnt nýja verkáætlun um máltækni fyrir íslensku. Verkáætlunin byggir á tillögum stýrihóps um máltækni, en tillögurnar eru settar fram í skýrslunni Máltækni fyrir íslensku 2018-2022.

Í skýrslunni er gerð grein fyrir nauðsynlegum innviðum fyrir íslenska máltækni. Fjögur forgangsverkefni eru skilgreind, sem hafa það markmið að þróa málföng, gagnabanka og aðra innviði fyrir talgreiningu, talgervil, vélrænar þýðingar og málrýni. Einnig eru lagðar fram tillögur í skýrslunni um það hvernig hægt sé að hvetja til nýsköpunar í máltækni, efla menntun og rannsóknir á því sviði og haga skipulagi fimm ára máltækniáætlunar.

Sjálfstæði Íslands í húfi

Tækniþróun er ekki ókeypis, en á hinn bóginn gæti aðgerðarleysi í máltækni reynst samfélaginu dýrt. Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, segir íslenskuna grunninn að sjálfstæði þjóðarinnar.

„Gróft kostnaðarmat þessarar fimm ára áætlunar hljóðar upp á rétt rúma 2,3 milljarða króna. Þar af er gert ráð fyrir því að 1,8 milljarðar komi úr sameiginlegum sjóði Íslendinga og að framlag atvinnulífsins verði um hálfur milljarður,“ segir Kristján Þór. „Þetta er há upphæð en í mínum huga er ekki inni í myndinni að gera ekki neitt. Íslenskan er grunnurinn að tilveru okkar Íslendinga sem sjálfstæðrar, fullvalda þjóðar. Ef við erum ekki menn til þess að standa undir þeirri ábyrgð að hlúa að þjóðartungu okkar og rækja þær skyldur sem af því leiðir, þá er nú líklega illa komið fyrir okkur.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .