Samkvæmt umdeildri skýrslu munu beinar afleiðingar Brexit koma til með að kosta ríkissjóð Bretlands 66 milljarða punda á ári, eða sem nemur  9.307 milljörðum íslenskra króna.

Skýrsla stjórnvalda sem lekið hefur verið til fjölmiðla gefur til kynna að ákvörðun Breta um að yfirgefa Evrópusambandið, og um leið hinn frjálsa evrópska markað, og skipta í staðinn yfir í regluverk Alþjóða viðskiptastofnunarinnar muni valda því að gengi pundsins muni falla um allt að 9,5% samborið við ef landið hefði ákveðið að vera áfram hluti af ESB.

Efni skýrslunnar byggir á umdeildri rannsókn sem framkvæmd var af George Osborne í apríl, nokkrum mánuðum áður en þjóðaratkvæðagreiðslan fór fram. Þrátt fyrir mikla gagnrýni heldur fjölmiðilinn Times því fram að fjármálayfirvöld byggi enn á útreikningum þeim sem koma fram í skýrslunni.