Hjá Olís eru um 430 heilsársstörf en með hlutastörfum greiðir Olís á bilinu 600 til 700 manns laun í hverjum mánuði. Stór hluti starfsmannanna eru félagar í Eflingu og eru flestir þeirra starfandi á þjónustustöðvum fyrirtækisins. Einnig er þónokkur fjöldi starfsmannanna félagar VR en það eru til dæmis verslunarstjórar þjónustustöðvanna.

Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís , segir að ef lægsti taxtinn yrði hækkaður í 300 þúsund þá myndi það auka launakostnað Olís um 150 milljónir á ári. Verði lægsti taxtinn síðan hækkaður í 425 þúsund á þremur árum, sem er krafa Eflingar og VR , þá muni launakostnaðurinn hækka um einn milljarð á samningstímanum. Hann segir að á þremur árum muni launahlutfall Olís því hækka úr 54% í um 62 til 65%.

„Þetta eru gríðarlega miklar breytingar,“ segir hann. „Þær kröfur, sem lagðar hafa verið fram og ákveðin stéttarfélög segja ófrávíkjanlegar, kalla á viðbrögð. Talað hefur verið um mikilvægi þess að halda verðbólgu niðri og verja kaupmáttinn en það er auðvitað vandasamt miðað við þær kröfur sem eru á borðinu. Við, sem rekum fyrirtæki, þurfum að skoða hvernig við ætlum að bregðast við.

Þjónustustig í íslenskri verslun er mjög hátt. Verslanir eru til dæmis opnar mjög lengi, sumar allan sólarhringinn og jafnvel alla daga ársins. Ef öllu verður velt út í verðlagið þá vitum hvernig það mun enda og þess vegna er það ekki valkostur að mínu mati. Ef það á að halda arðsemi félaga án þess að hækka vöruverð þá hlýtur að þurfa að skoða þjónustustigið og þá opnunartímann.

Ef minnka á þjónustustigið, hafa verslanir opnar í skemmri tíma, þá þýðir það óhjákvæmilega fækkun starfsmanna. Með þessu er ég ekki að segja að það sé markmið fyrirtækja að fækka starfsfólki, langt í frá. Þetta er alls ekki hótun heldur er ég einfaldlega að lýsa þeim vanda, sem stjórnendur fyrirtækja standa frammi fyrir verði samið í takt við ítrustu kröfugerðir stéttarfélaganna.“

Jón Ólafur segir að á síðustu þremur árum hafi tekist að hagræða í rekstrinum til að standa undir kjarasamningunum sem gerðir voru vorið 2015. „Við komumst ekki lengra nema með því að minnka þjónustustigið og hugsanlega auka sjálfvirknisvæðinguna. Staðan er mjög alvarleg.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér .