*

miðvikudagur, 20. mars 2019
Innlent 10. janúar 2019 12:37

Kostnaðarmatið rætt í næstu viku

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segist hóflega bjartsýnn eftir fund hjá ríkissáttasemjara.

Trausti Hafliðason
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.
Haraldur Guðjónsson

Forsvarsmenn VR, Eflingar, Verkalýðsfélags Akraness og Samtaka atvinnulífsins funduðu í gær með ríkissáttasemjara. Var þetta annar fundurinn hjá sáttasemjara síðan deilunni var vísað til hans fyrir jól. Fyrsti fundurinn fór fram á milli jóla og nýárs. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að fundurinn í gær hafi staðið í tæpar tvær klukkustundir.

„Núna lútum við verkstjórn ríkissáttasemjara og á fundinum var farið yfir kröfugerðir stéttarfélaganna, þær sömu og við fórum yfir á fundi með þeim í október,“ segir Halldór Benjamín. „Einnig var farið yfir samningsáherslur okkar, sem við birtum fyrst þann 1. október. Þegar þessu lauk þá var farið yfir næstu skref. Næsti fundur verður á miðvikudaginn í næstu viku og þar munum við annars vegar ræða kostnaðarmat á kröfugerðir stéttarfélaganna og hins vegar hvernig við sjáum launaliðinn mögulega geta þróast.“

Spurður hvort hann sé bjartsýnn á lausn svarar Halldór Benjamín: „Á meðan við eigum í viðræðum er ég hóflega bjartsýnn. Það er rík krafa innan verkalýðshreyfingarinnar að samningar gildi frá 1. janúar 2019. Til þess að liðka fyrir samningum höfum við ákveðið að gangast við þeirri kröfu um að samningar verði afturvirkir en það tilboð fellur niður ef samningar nást ekki í janúar eða ef viðræðum er slitið. Með þessu teljum við okkur vera að koma til móts við verkalýðshreyfinguna í þeirri von að liðka fyrir samningunum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.