Það stefnir í met í forskráningum ökutækja á þessu ári, en búist er við að allt að 34 þúsund ökutæki verði skráð hjá Samgöngustofu áður en árið er liðið að því er Fréttablaðið greinir frá. SkýriNgin á þessum mikla fjölda má meðal annars finna í því að sérstakur afsláttur af vörugjöldum, allt að hálfri milljón króna á hverja bifreið, sem bílaleigur hafa notið fellur úr gildi um áramót.

Steingrímur Birgisson forstjóri Hölds á Akureyri staðfestir að bílaleigur hafi verið að kaupa bíla í meira mæli í haust til að nýta sér afsláttarkjörinn. „Við höfum verið að kaupa inn bíla í haust til að deyfa þetta högg,“ segir Steingrímur. „Þessar breytingar munu kosta okkar fyrirtæki um þrjú hundruð milljónir á ári og rúma tvo milljarða árlega fyrir greinina í heild.“