Icelandair Group birti eftir lokun markaða síðastliðinn þriðjudag uppgjör sitt fyrir annan ársfjórðung þessa árs. Uppgjörið vakti mikla athygli þar sem félagið sendi frá sér afkomuviðvörun þann 8. júlí síðastliðinn þar sem EBITDA spá fyrir árið í ár var lækkuð úr 170-190 milljónum dollara niður í 120-140 milljónir. Varð það til þess að hlutabréfaverð félagsins lækkaði um 23% daginn eftir að tilkynningin var birt. Voru ástæður lækkunarinnar meðal annars rask á flugáætlun félagsins, seinkun á innleiðingu nýrra flugvéla auk þess sem fram kom að spá félagsins um hækkandi meðalfargjöld á seinni hluta ársins myndi ekki ganga eftir.

Afkoma Icelandair á öðrum ársfjórðungi var töluvert verri en greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir. Tap félagsins nam tæplega 26 milljónum dollara á fjórðungnum eða því sem nemur um 2,7 milljörðum króna samanborið við tæplega 10 milljóna dollara hagnað á sama tímabili í fyrra. Meðaltal þeirra þriggja afkomuspáa sem Viðskiptablaðið komst yfir gerði ráð fyrir að tap tímabilsins myndi nema tæplega 8 milljónum dollara. EBITDA félagsins nam 14,7 milljónum dollara og dróst saman um 65% frá sama tímabili í fyrra. EBITDA var einnig töluvert lægri en greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir en meðaltal þeirra hljóðaði upp á 23,7 milljónir dollara. Farþegafjöldi á ársfjórðungnum nam 1,15 milljónum og fjölgaði þeim um 2% milli ára.

Markaðsaðilar tóku vægast sagt illa í uppgjör félagsins. Við lokun markaða í gær stóð gengi bréfa félagsins í 7,85 krónum á hlut og hefur það ekki verið lægra síðan í nóvember árið 2012.  Velta með bréf félagsins var þó tiltölulega lítil eða 109 milljónir króna. Hlutabréfaverð félagsins hefur nú lækkað um 80% frá því að það náði hámarki sínu í lok apríl 2016. Það sem af er þessu ári hefur gengi bréfa félagsins lækkað um 40%.

Íslenskt launaumhverfi erfitt

Tekjur tímabilsins námu 398,9 milljónum dollara og jukust um 9% frá sama tímabili í fyrra. Rekstrarkostnaður á tímabilinu nam 384,2 milljónum dollara og jókst um tæp 18% frá sama ársfjórðungi í fyrra. Kostnaður félagsins heldur því áfram að vaxa hraðar en tekjur þess. Frá fyrsta ársfjórðungi 2016 hefur kostnaður félagsins vaxið hraðar en tekjur á átta af tíu fjórðungum. Ytri þættir í rekstri félagsins eins og olíuverð og launaþróun hafa haft töluvert um þessa þróun að segja. Heildareldsneytiskostnaður nam 77,3 milljónum dollara og jókst um 28% frá sama tímabili í fyrra. Eldsneytiskostnaður á tímabilinu þegar tekið er tillit til eldsneytisvarna nam 616 dollurum á tonnið af flugvélabensíni og jókst um 29% frá sama tímabili í fyrra. Þá hækkaði launakostnaður um 15% á milli ára og nam 145 milljónum dollara á tímabilinu.

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri félagsins, segir að íslenskt launaumhverfi hafi lítið hjálpað félaginu. „Við erum í þessum íslensku aðstæðum þar sem við erum að sjá verulega miklar launahækkanir sem eru langt umfram það sem er að gerast hjá okkar samkeppnisaðilum. Ef maður horfir á Norwegian, British Airways, Air France, Lufthansa eða bandarísku flugfélögin þá er fáheyrt, ef nokkurn tímann að við sjáum álíka launahækkanir eins og hafa verið á Íslandi. Í ofanálag hefur krónan áhrif og styrking hennar þar sem við gerum upp í dollurum.“

Spurður hvort félagið geti ráðið til sín erlenda flugmenn til þess að lækka launakostnað segir Björgólfur að svo sé í raun ekki. „Það er mat okkar eins og samningar eru núna að við getum það ekki. Ef við erum að nýta flugmann í 600 flugtíma sem má fara í 900 á meðan önnur félög  ná að nýta hann í kannski 870 tíma þá er enginn smá munur þarna. Önnur félög gætu verið að borga hátt í svipaða krónutölu og við en fyrir fleiri unna tíma. Þetta er það sem við þurfum að bæta okkur í og þarna liggja tækifæri til framtíðar.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .