Þáttaskil verða í undirbúningi fyrirhugaðrar Borgarlínu, nýs samgöngukerfis sem fá mun sérrými í gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins, þegar vinnslutillögur um breytingar á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins höfuðborgarsvæðisins til 2040 og aðalskipulagi sveitarfélaganna sex sem standa að Borgarlínu verða kynntar á sameiginlegum fundi sveitarfélaganna.

Gert er ráð fyrir að Borgarlínan verði allt að 57 kílómetrar að lengd og að verkefnið verði áfangaskipt. Enn fremur er reiknað með því að kostnaður við innviði Borgarlínu verði um 1,1 til 1,15 milljarður króna á hvern kílómetra að verðlagi í janúar 2017 og því gæti kostnaður við heildarnetið, sem byggt verður í áföngum, numið 63 til 70 milljörðum króna.

Rökin hallast að hraðvagnakerfi

Í áfangaskýrslu dönsku verkfræðistofunnar COWI er einnig farið yfir það hvort heppilegra sé að byggja hraðvagnakerfi eða léttlest. Þar segir að ákvörðunin um það hvernig Borgarlínan muni verða, byggi á mörgum þáttum en þar vegi þyngst farþegatölurnar og stofn- og rekstrarkostnaður.

Að mati verkfræðistofunnar hallast rökin að því að byggja hraðvagnakerfi og styðja vel við það með öðrum aðgerðum til að auka farþegafjöldan og byggja upp sterkari farþegagrunn, þannig að til lengri tíma litið sé mögulega hægt að breyta kerfinu í léttlestrarkerfi.