Heildarvelta debetkorta í desember síðastliðnum var 40 milljarðar króna sem er 23,4% aukning frá fyrri mánuði og 0,4% aukning miðað við sama mánuð árið áður. Heildarvelta kreditkorta í desember var 31,5 milljarður sem er 1,4% meira en í mánuðinum á undan og 5,9% aukning miðað við sama mánuð árið áður. Seðlabankinn birti nýjar tölur um greiðslumiðlun í gær.

IFS Greining fjallar um veltuna í morgunpósti sínum og bendir á að heildarkortavelta innlendra debetkorta dróst saman um 3,4% að raunvirði í desember í fyrra frá sama tíma árið 2011. Heildarvelta innlendra kreditkorta jókst hins vegar um 1,6% að raunvirði. „Mesta aukningin var í veltu erlendra debet- og kreditkorta hérlendis, í desember milli ára, en hún jókst um 35,3% að raunvirði en jákvætt er að neysla ferðamanna skuli aukast yfir vetrarmánuðina. Fyrir árið 2012, í heildina, frá fyrra ári jókst velta erlendra korta um 14,9% að raunvirði og velta innlendra kreditkorta um 3,3% að raunvirði á meðan velta innlendra debetkorta dróst saman um 2,1% að raunvirði á árinu,“ segir í Morgunpóstinum.