Fjarskiptafélagið Síminn stendur í málarekstri við þrjú félög vegna mála sem snúa að túlkunum á fjarskipta-, fjölmiðla- og samkeppnislögum. Skaðabótakröfur og stefnufjárhæðir vegna meintra lögbrota Símans hlaupa á samtals fjórum milljörðum króna.

Sýn (Vodafone) hefur stefnt Símanum til greiðslu skaðabóta vegna meints ólögmæts verðþrýstings. Stefnufjárhæð nemur ríflega 900 milljónum króna. Fyrirtækin hafa einnig átt í ágreiningi í tengslum við dreifingu á sjónvarpsefni.

INTER, samtök aðila er veita internetþjónustu, hefur krafist 3 milljarða í skaðabætur vegna meintra brota Símans á samkeppnislögum. Félög innan samtakanna hafa óskað eftir dómkvaðningu matsmanna. Einnig hafa félögin höfðað viðurkenningarmál gegn Símanum þar sem krafist er viðurkenningar á skaðabótaskyldu.

Tölvu- og fjarskiptafyrirtækið TSC hefur einnig stefnt Símanum til greiðslu skaðabóta vegna meintra brota á ákvörðun Samkeppnisráðs (nr. 10/2015) og nemur stefnufjárhæðin rúmlega 100 milljónum. Félagið hefur hafnað málatilbúnaði gagnaðila í öllum málunum og gagnstefnt Vodafone.

Samkvæmt árshlutareikningi Símans fyrir þriðja ársfjórðung ríkir óvissa um ofangreind mál, en stjórnendur Símans telja þó að ekki komi til verulegra fjárútláta vegna þeirra.

Síminn hagnaðist um 887 milljónir á fyrstu þremur mánuðum ársins og jókst hagnaður félagsins um 15% milli ára.