Stúdentaráð hefur í sumar unnið greiningu á frumvarpi menntamálaráðherra um námslán og námsstyrki. Þetta kemur fram á heimasíðu Stúdentaráðs. Ráðið setur sig ekki á móti frumvarpinu, en krefst engu að síður breytinga.

Kristófer Már Maronsson, formaður Stúdentaráðs, hefur unnið að skýrslu um frumvarpið ásamt Guðmundi Snæbjörnssyni og öðrum starfsmönnum skrifstofunnar. Niðurstaða greiningarinnar sýnir að þeirra mati mikilvægi þess að breyta núverandi kerfi í sambærileg lánakerfi og fyrir finnast á Norðurlöndunum.

Flestir yrðu betur settir

Notast var við gögn frá LÍN og var reynt að meta hversu miklu styrkir og breytt lánakerfi myndu gera fyrir mismunandi námsgreinar. Í samtali við Viðskiptablaðið segir Kristófer nánast alla nemendur Háskóla Íslands koma betur út úr nýju frumvarpi. „Niðurstöður okkar sýna að nánast allir nemar HÍ koma betur út endurgreiðslulega séð, ef kerfinu verður breytt. Ef miðað er við 180 eininga nám sem dæmi, myndi staða 3.413 nema batna. 73 nemar myndu ekki græða á breytingunni“

Nemendur HÍ eru þeir sem almennt taka minnst námslán og fá lægsta styrki. Námsframvinda hefur samkvæmt skýrslunni dvínað og má rekja það til þeirrar staðreyndar að um 64% nemenda segjast vinna með námi. 69% af þeim nemendum hafa sagst ætla að hætta að vinna með skóla ef námslán hækka. Breyting af þessu tagi myndi skila sér í betri árangri nema og því væri þjóðhagslegur ábati að öllum líkindum meiri.

Krefjast þess að greitt verði mánaðarlega

Stúdentaráð gerir þó nokkrar kröfur til ráðherra. Umfangsmesta krafan er sú að námsmenn geti fengið greitt mánaðarlega frá Lín. Bæði lánin og styrkinn. Stúdentaráð telur það æskilegt að lánað verði fyrir 540-ECTS einingum, en í frumvarpinu var boðað að lána fyrir 420-ECTS einingum. Einnig vill ráðið sjá breytingu, sem myndi hvetja nema til þess að hámarka einingafjölda á önn.

Heilt yfir vill Kristófer Már að hlustað verði á stúdenta í þessu máli. „Krafa okkar í þessu máli er að hlustað verði á stúdenta. Þetta er búið að vera baráttumál í mörg ár. Svona frumvarp á ekki að vera notað í pólitískum tilgangi. Horfa verður á staðreyndir í þessu máli. Tilfinningarök og kosningabarátta stjórnmálaflokka verður að vera aðskilin frá umræðunni.“