Nýtt sameiginlegt fjármálaeftirlit evrusvæðisins, Single Supervisory Mechanism (SSM), hefur aukið eiginfjárkröfur sínar til evrópskra banka og munu þeir að meðaltali þurfa að hækka hlutfall eiginfjárþáttar 1 um 0,5 prósentustig miðað við kröfur eftirlitsins frá árinu 2014. Krafa SSM um eiginfjárhlutfallið var að meðaltali um 9,6% árið 2014, en mun hækka í 9,9% í ár, auk þess sem bankar munu þurfa að setja til hliðar 0,2% eigin fjár til viðbótar til að mæta áhættu af kerfislega mikilvægum stofnunum.

Nýju eiginfjárkröfurnar koma í kjölfar rannsóknar á áhættugrunni evrópskra banka, sem staðið hefur yfir í eitt ár. Meðal þess sem þar kemur fram er að fimm bankar mættu ekki eiginfjárkröfum SSM og að einn hafi verið töluvert langt frá því að mæta kröfum eftirlitsins. Bankarnir eru hins vegar ekki nafngreindir í skýrslu eftirlitsins.

Í frétt Wall Street Journal er vísað í skýrsluna, en þar segir að margir evrópskir bankar séu enn að jafna sig eftir skuldakreppuna 2012 og að þeir séu enn að takast á við efnahagslega erfiðleika. Stærstu vandamál þeirra tengist því að þurfa að aðlaga viðskiptalíkön sín að nýjum veruleika lágvaxtaumhverfis.