Stundum láta Íslendingar eins og bankahrunið 2008 hafi verið einstakur og einangraður, heimssögulegur viðburður, ótrú­leg þolraun, sem eigi engan sinn líka. Að það hafi átt sér sérstakar íslenskar ástæður með sérstökum íslenskum afleiðingum. Það er ámóta sennileg tilgáta og að „útrásarævintýrið“ hafi byggst á sérstökum íslenskum menningareinkennum og víkingaeðli. Án þess að nokkuð sé útilokað um að reynsluleysi og glannaskapur hafi haft sitt að segja.

Hjá hinu er þó ekki hægt að líta að velflest lönd heims hafa orðið fyrir barðinu á fjármálakreppu, sem fagnar tíu ára afmæli um þessar mundir og fátt bendir til þess að sé úr sögunni enn. Raunar má vel halda því fram að Íslendingar hafi verið heppnir að taka skellinn árið 2008. Vissulega má efast um að eftirhrunið hafi verið nýtt skynsamlega að öllu leyti — enn gætir félagslegrar ólgu, skautunar og skefjaleysis — en efnahagslíf og fjármálakerfi Íslands eru nánast einstök í hinum vestræna heimi hvað varðar vöxt og varúðarráðstafanir. Sumum finnst meira að segja fullmikið af hinu góða á báðum sviðum.

Á sama tíma hefur endalaust lengst í fjármálakreppunni á Vesturlöndum. Seðlabankarnir hafa gert sitt til þess að halda hruni og skelfingu í skefjum, en vantrú á þær aðgerðir allar heldur áfram að aukast, án þess að nokkur hafi neinar lausnir á takteinum. Öðru nær, því deyfilyfjagjöf Seðlabankanna – hömlulaus peningaframleiðsla – hefur gert hinn undirliggjandi vanda nær ólæknandi.

Ábyrgðin liggur víða

Auðvitað var það svo að vandinn varð til á fjármálamörkuðum og það er ástæðulaust að gera lítið úr ábyrgð banka- og fjármálastofnana af ýmsu tagi. Þar hafa jafnvel lestir á borð við græðgi og ágirnd komið við sögu. En um leið má ekki horfa hjá ábyrgð seðlabanka og stjórnmálamanna á því sem gerðist, án þess að það þurfi að ætla þeim neitt nema hinar bestu hvatir.

Undanfarinn aldarfjórðung hafa seðlabankar í hinum vestræna heimi litið á það sem sjálfgefið hlutverk sitt að halda vöxtum niðri og tryggja aðgang að nægu og ódýru fjármagni. Alltaf. Jafnt á mögrum árum sem feitum, en sérstaklega auðvitað þegar hætta steðjar að. Hvort sem það var mánudaginn svarta 1987, Mexíkókreppuna 1994, bankakreppur í Asíu og Rússlandi á síðasta áratug liðinnar aldar, Dotcom-bóluna eða upp úr hryðjuverkunum 11. september 2001.

Allt var það tilefni stórfenglegra peningalegra innspýtinga, með fyrirsjáanlegum hækkunum á eignum og fjármunum hverskonar gagnvart kaupgjaldi. Sumt af þessu má rekja til pólitísks þrýstings – gleymum ekki fasteignalánum til fólks sem tæplega gat staðið undir þeim undir nokkrum kringumstæðum, sem síðan voru falin í vöndlunum frægu – en það er ekki hægt að líta hjá hinu að sjálfstæði seðlabanka frá stjórnmálamönnum virðist ekki hafa leyst þá frá þessari hneigð til þess að gleðja alla með ódýrum peningum. Var þó þessu sjálfstæði seðlabankanna beinlínis komið á til þess að þeir væru ekki undir hælnum á stjórnmálamönnum, sem myndu freistast til þess að færa kjósendum peningalega glaðninga.

Það kann að benda til þess að hugmyndir manna í seðlabankaheiminum um hlutverk sitt hafi breyst til hins verra. Þeir eiga vissulega að horfa til hagsældar og virks fjármálakerfis, en það má tæplega gerast á kostnað fjármálalegrar ábyrgðar. Hvorki seðlabankans né ríkisvaldsins, fjármálageirans né einstakra stofnana hans.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .