Í nýrri skýrslu um atvinnuhúsnæðismarkaðinn sem unnin var fyrir Reginn ehf. vegna hlutafjárútboðs félagsins er meðal annars fjallað um mismunandi leiguverð eftir staðsetningu atvinnuhúsnæðis á landinu.

Leiguverð er einna hæst í kringum Kringluna sem hefur jafnframt mestan seljanleika þegar kemur að verslunarhúsnæði. Seljanleiki veltur meðal annars á útleigumöguleikum. Eignarhald Kringlunnar er blandað en um 70% leigurýma eru í eigu Reita hf. Í skýrslunni er þó bent á að flutningur Háskólans í Reykjavík frá svæðinu hafi haft neikvæð áhrif og fækkað viðskiptavinum.

Smáralind, sem er í stærsta verslunarhúsnæði landsins, er helsti keppinautur Kringlunnar og er hún í þriðja sæti þegar kemur að seljanleika, á eftir neðri hluta Laugavegar og Bankastrætis. Smáralind er í 100% eigu Eignarhaldsfélags Smáralindar ehf.Laugaveginum er skipt í tvö svæði þar sem neðri hlutinn er vinsæll en verr gengur með efri hlutann. Í skýrslunni segir að svæðinu umhverfis Hlemm hafi hnignað.

En miðbærinn er ekki aðeins vinsæll hjá verslunum heldur er seljanleiki skrifstofuhúsnæðis þar einnig töluverður. Er það helst vegna nálægðar við almenningssamgöngur, verslun og veitingastaði og opinberar stofnanir. Gæði húsnæðis þar eru þó mjög mismunandi þar sem sumt er gamalt og þarfnast viðhalds. Borgartúnið hefur einnig mikinn seljanleika og hefur, eins og áður kom fram, farið vaxandi. Þá er Kringlusvæðið vinsælt og njóta skrifstofuturnarnir tveir vinsælda.

Þungamiðju iðnaðar á höfuðborgarsvæðinu er að finna á Völlunum í Hafnarfirði, á Ártúnshöfða og við Granda í Reykjavík, við höfuðstöðvar Marels í Garðabæ og Smiðjuveg í Kópavogi. Iðnaður færist smám saman fjær miðju höfuðborgarsvæðisins sem samkvæmt skýrslunni er eðlileg þróun enda land nær miðju höfuðborgarinnar eða höfuðborgarsvæðisins mun dýrara en á jöðrum þess.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.