Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur skipað Kristínu Björgu Albertsdóttur forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða frá 1. nóvember næstkomandi. Hæfnisnefnd mat Kristínu hæfasta út hópi fjögurra umsækjenda. Kristín er forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands og var skipuð í það embætti 1. júlí 2013. Þetta kemur fram í frétt á vef Velferðarráðuneytisins .

„Kristín Björg er fædd árið 1963. Hún lauk prófi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 1987. Síðar hóf hún nám í lögfræði við sama skóla og lauk MA-prófi í lögfræði árið 2008.

Kristín hefur á starfsferli sínum meðal annars starfað við hjúkrunarráðgjöf hjá Læknavaktinni, verið deildarstjóri við Heilbrigðisstofnunina á Egilsstöðum og hjúkrunarforstjóri í afleysingum, hún starfaði um árabil við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, meðal annars sem aðstoðardeildarstjóri, sem hjúkrunarforstjóri heilsugæslu við Heilbrigðisstofnunina á Seyðisfirði og einnig við Heilsugæsluna á Fáskrúðsfirði. Þá hefur Kristín gegnt starfi fulltrúa hjá Sýslumanninum í Reykjavík,“ segir í tilkynningu frá Heilbrigðisráðuneytinu.