Við fluttumst fyrst út sumarið 1996 og ég hélt ég kæmi aldrei aftur heim. Áfangastaðurinn var stórborgin Wuppertal í Þýskalandi. Tveimur árum seinna fluttumst við austur fyrir nýfallinn múr, nánar tiltekið til Magdeburgar þar sem Austur-Þjóðverjarnir, börnin okkar, Helga Soffía og Einar Þorsteinn fæddust,“ segir Kristín Soffía Þorsteinsdóttir en hún og maðurinn hennar, Ólafur Stefánsson handboltamaður, eru á heimleið eftir 17 ár í utlöndum. Ólafur hefur gert tveggja ára samning við Val og mun taka við þjálfun á meistaraflokki félagsins í handbolta.

Fjölskyldan hefur verið á þvælingi í þessi 17 ár og búið á mjög ólíkum stöðum. Frá Magdeburg í austurhluta Þýskalands var ferðinni heitið til Ciudad Real á Spáni: „Sumarið 2003 var upphafið af Spánardvölinni okkar en sá unaður entist í sex dásamleg ár. Þar fæddist sólarstúlkan okkar, þriðja barnið, Stefanía Þóra,“ segir Kristín Soffía.

Árið 2009 var aftur komið að flutningum á fjölskyldunni: „Við gleymdum að Þýskaland er eins og það er og fluttum frá Spáni til Heidelberg árið 2009. Þar bjuggum við í tvö ár. Frá Heidelberg lá leiðin til elsku Kaupmannahafnar og nutum við þeirrar góðu borgar í eitt og hálft ár,“ segir Kristín Soffía.

Í janúar á þessu ári dró allverulega til tíðinda hjá fjölskyldunni í Kaupmannahöfn: „Þegar skandinavísk smartheit voru ekki lengur nóg var ákveðið að bæta smá exótískum áhrifum í lífið þegar við fluttumst til Katar og Persaflóinn varð baðkarið okkar. Í sumar mun því ævintýri ljúka og heimflutningur til Íslands verður að veruleika.“

Þegar Kristín Soffía lítur til baka þá er hún ekki í vandræðum með að nefna uppáhaldsstaðinn sinn: „Ciudad Real á Spáni. Þar var allt fallegt og gott. Lífsmynstrið hentaði okkur fullkomlega. Matmálstímarnir, matarmenningin, veðrið, skóli barnanna, fólkið í kringum okkur, handboltinn gekk ævintýralega vel og rommið smakkast betur þar en annars staðar. Kaupmannahöfn var líka yndisleg. Stóra stúlkan upplifði sitt fyrsta frelsistímabil, eignaðist góða vini, krakkarnir voru glaðir í sínum skólum og við öll nutum svo sannarlega borgarinnar sem hefur svo margt uppá að bjóða.“

Kristín Soffía segir fjölskylduna spennta að koma heim: „Við hlökkum mikið til að flytjast heim til Íslands. Við erum spennt eftir 17 ára fjarveru og krakkarnir geta ekki beðið. Nú bætist við enn einn staðurinn þar sem allt er nýtt en samt svo kunnuglegt eftir sumarfrí og jólafrí undanfarinna ára. Vinir og ættingjar eru auðvitað helsta aðdráttaraflið. Krakkarnir vita samt ekkert hvað það er að vaða snjóinn upp að öxlum og taka strætó í skólann. Kannski biðja þau um flugmiða til Katar í jólagjöf. Hvað veit maður?“

Ólafur Stefánsson og Stefanía Þóra í sundlauginni í Katar.
Ólafur Stefánsson og Stefanía Þóra í sundlauginni í Katar.

Einar Þorsteinn í Katar.
Einar Þorsteinn í Katar.

Helga Soffía og Stefanía Þóra í Katar.
Helga Soffía og Stefanía Þóra í Katar.

Kristín Soffía í Katar.
Kristín Soffía í Katar.

Stefanía Þóra, Einar Þorsteinn og Helga Soffía í Katar.
Stefanía Þóra, Einar Þorsteinn og Helga Soffía í Katar.