Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar, var kjörinn stjórnarformaður Lánasjóðs sveitarfélaga, á aðalfundi lánasjóðsins fyrr í dag. Kristinn hefur setið í stjórn lánasjóðsins frá árinu 1999, þar af sem varaformaður frá árinu 2005. Greinir Samband íslenskra sveitarfélaga frá þessu í fréttatilkynningu.

Í stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga voru auk Kristins kjörin; Arna Lára Jónsdóttir, bæjarfulltrúi í Ísafjarðarbæ, Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, Guðmundur B. Guðmundsson, formaður bæjarráðs Akureyrarbæjar og Helga Benediktsdóttir, deildarstjóri fjárstýringar Reykjavíkurborgar.

Kristinn lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Egilsstöðum árið 1985 og rekstrarfræðiprófi árið 1992 frá Samvinnuháskólanum, nú Viðskiptaháskólinn á Bifröst. Að námi loknu lá leið Kristins aftur á heimaslóðir þar sem hann tók við starfi fjármálastjóra hjá Kaupfélagi Dýrfirðinga og hjá Fáfni á árunum 1993 til 1995. Þá fluttist hann á Hellissand og starfaði sem fjármálastjóri Hraðfrystihúss Hellissands. Árið 1998 varð hann bæjarstjóri Snæfellsbæjar og hefur gegnt því embætti síðan.

Kristinn tekur við af Magnúsi B. Jónssyni, sem verið hefur stjórnarformaður lánasjóðsins frá árinu 2003 eða um 16 ára skeið. Magnús sem er einn reyndasti sveitarstjórnarmaður landsins var fyrst kosinn í sveitarstjórn á Skagaströnd 1982 og var sveitarstjóri þar frá 1990 þar til í desember á síðasta ári. Hann á því að baki ríflega 36 ára samfellt starf að sveitarstjórnarmálum.