Kristinn Ólafsson, viðskiptafræðingur og starfandi framkvæmdarstjóri Grænna skáta, hefur verið ráðinn sem framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra skáta. Kristinn hefur m.a. starfað sem framkvæmdastjóri hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, framkvæmdastjóri hjá augnlæknastöðinni Sjónlagi og sem verkefnastjóri hjá Capacent Gallup.

Hann starfaði sem skáti með Skátafélaginu Ægisbúum hér á árum áður og hefur verið virkur í Hjálparsveit skáta í Reykjavík í 37 ár. Á árunum 2014-2016 var Kristinn gjaldkeri í stjórn BÍS.

Stjórn BÍS þakkar Hermanni Sigurðssyni fráfarandi framkvæmdastjóra BÍS fyrir hans góðu störf. Hann hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) og óskum við honum velfarnaðar í starfi segir í fréttatilkynningu.

Skátarnir bjóða Kristinn innilega velkominn til aukinna starfa fyrir skátana á Íslandi og hlakka til að vinna saman að eflingu skátastarfs á Íslandi segir þar jafnframt.