Kristján Ólafur Ólafsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri jarðgerðarstöðvarinnar Moltu í Eyjafirði.

Kristján er M.Sc. í iðnaðarverkfræði frá Álaborgarháskóla í Danmörku og hefur undanfarin
níu ár starfað hjá Alcoa Fjarðaáli við stjórnun og framleiðsluþróun.

Kristján er trúlofaður Söndru Hrönn Sveinsdóttur, skurðhjúkrunarfræðingi, og eiga þau fjögur börn. Ólöf Jósefsdóttir, sem verið hefur framkvæmdastjóri Moltu síðustu ár, lætur af þeim störfum á næstu mánuðum.

Eru henni færðar miklar þakkir fyrir gott starf í fréttatilkynningu fyrirtækisins um ráðninguna.

Félagið Molta ehf. ,sem var stofnað í mars árið 2007, sér um móttöku og úrvinnslu nánast alls lífræns
úrgangs á Eyjafjarðarsvæðinu. Molta er í eigu allra sveitarfélaga við fjörðinn, Byggðastofnunar og nokkurra fyrirtækja.

Á nýliðnu ári tók Molta á móti alls um 8.100 tonnum af lífrænum úrgangangi og jarðgerði. Þar af var
um 4.500 tonn slátur- og heimilisúrgangur og 3.600 tonn garðaúrgangur, pappír og timbur.