Ríkisstjórnin hefur samþykkt að skipa Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, í embætti samstarfsráðherra Norðurlanda.

Sem Samstarfsráðherra ber hann ábyrgð á norrænu ríkisstjórnarsamstarfi innan Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir hönd forsætisráðherra að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá ríkisstjórninni.

„Saman fara samstarfsráðherrar hverrar þjóðar með stjórn norræna ríkisstjórnarsamstarfsins og taka stefnumótandi ákvarðanir,“ segir í tilkynningunni.

„Norræna ráðherranefndin var stofnuð árið 1971. Markmiðið með norrænu samstarfi er annars vegar að gera Norðurlöndin aðlaðandi til búsetu, atvinnu og fyrirtækjarekstur og hins vegar að efla norrænu ríkin á alþjóðavettvangi. Samstarfið er fjölþætt, meðal annars á sviði rannsókna, umhverfismála, velferðar og menningar.

Fulltrúar ríkisstjórna Norðurlanda hittast í ráðherranefndinni og móta meðal annars norræna samninga og sáttmála. Á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar starfa tíu nefndir fagráðherra, sem hittast reglulega og ræða sameiginleg málefni.“