Kristrún Tinna Gunnarsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður á skrifstofu bankastjóra. Hún mun sinna verkefnum tengdum innleiðingu á stefnu Íslandsbanka sem unnin hefur verið að af starfsmönnum og ytri ráðgjöfum undanfarna mánuði.

Kristrún hefur yfir tíu ára reynslu af verkefnastjórnun, stefnumótun og greiningarvinnu á Íslandi og erlendis. Kristrún sat nýverið í verkefnahóp Fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem vann Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Hún hefur á undanförnum árum starfað hjá alþjóðlega ráðgjafafyrirtækinu Oliver Wyman sem yfirverkefnastjóri. Einnig hefur hún starfað sem verknefnastjóri hjá Beringer Finance í Svíþjóð, sem og hjá Swedbank , Landsbanka Íslands og Arion verðbréfavörslu.

Kristrún Tinna er með B.Sc . í hagfræði frá Háskóla Íslands. Hún er M.Sc . í hagfræði frá Stockholm School of Economics og er master í alþjóðastjórnun (MiM) frá sama skóla og ESADE-háskólanum í Barcelona . Þá er hún löggiltur verbréfamiðlari frá Háskólanum í Reykjavík.

„Við fögnum því að fá Kristrúnu til liðs við okkur til að halda áfram með stefnumótun bankans," er haft eftir Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka í tilkynningu. „Ljóst er að bankaumhverfið eins og við þekkjum það í dag er að breytast mikið og við ætlum svo sannarlega að taka þátt í þeim breytingum. Samkeppnin er sífellt að aukast með tilkomu fjölmargra  innlendra og erlenda fjártæknifyrirtækja og við erum vel í stakk búin fyrir spennandi tíma. Reynsla Kristrúnar í stefnumótun og þekking frá vinnu í Hvítbók á eftir að nýtast okkur vel í áframhaldandi vinnu.“