Ferðaþjónustan hefur vaxið hratt á umliðnum árum líkt og landsmenn þekkja. Það sem minna er fjallað um er kröftugur vöxtur alþjóðageirans sem fallið hefur í skuggann af ferðaþjónustunni. Þetta kemur fram í nýrri samantekt Viðskiptaráðs.

Samanlagt jókst útflutningur um 50% prósent á árunum 2010–2017. Ef samsetning útflutningsvaxtar er skoðuð betur má jafnframt sjá að bróðurhluti vaxtarins hefur átt sér stað í ferðaþjónustu á Íslandi þ.e. samtölu ferðalaga og farþegaflutninga þeirra sem sækja landið heim. Sjá má að tengiflug erlendra farþega er hér flokkað með alþjóðageiranum og skýrir að miklu leyti vöxt hans. Hins vegar má segja að það safnist þegar saman kemur hvað varðar alþjóðageirann að öðru leyti en tengiflugi og flutningum. Þannig hefur t.d. útflutningur á hátækniþjónustu þ.e.a.s. fjarskipta-, tölvu og upplýsingatækniþjónusta vaxið um 14 milljarða króna að raunvirði á undanförnum sjö árum og annar iðnaður um 17 milljarða króna.

„Í McKinsey skýrslunni var talið að stærstu tækifærin til að ná markmiðum um aukin útflutning væru að finna í alþjóðageiranum þar sem náttúruauðlindir eru í eðli sínu takmarkaðar og setja því auðlindageiranum ákveðnar vaxtarskorður. Meiri kraftur reyndist þó í auðlindageiranum en flestir sáu fyrir þar sem ferðaþjónustan tók á stökk eins og landsmenn þekkja og því hefur auðlindageirinn staðið undir meirihluta útflutningsvaxtarins á síðustu árum. En hvað hefur þá orðið um alþjóðageirann?,“ segir í grein Viðskiptaráðs.

Greinina í heild sinni má lesa hér .