Hæstiréttur hefur staðfest niðurstöðu héraðsdóms um að vísa frá dómi kröfu fasteignafélagsins Gamma ehf. á hendur fjármálafyrirtækinu Gamma Capital Management vegna notkunar á vörumerkinu.

Snýst krafa fasteignafélagsins, sem á og leigir út fasteignir í miðbæ Reykjavíkur, um að samnefndu fjármálafyrirtæki yrði meinað að nota heitið GAMMA í fasteignaviðskiptum, eða öllu sem viðkemur umsjón með íbúðarhúsnæði og leigu þess. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu.

Taldi Héraðsdómur ekki sannað að Gamma Capital Management hefði notað vörumerkið til slíkra viðskipta og segir að Gamma ehf. hafi ekki rökstudd að hitt félagið hefði notað heitið í atvinnustarfsemi eða hygðist gera það. Almenna leigufélagið, sem er annað stærsta leigufélag landsins á almennum markaði er sjálfstætt einkahlutfélag í eigu sjóðs í rekstri Fjármálafyrirtækisins Gamma Capital Management.