Norskur dómstóll hefur úrskurðað norska ríkinu í hag og samþykkt að áætlanir stjórnvalda um olíuleit og vinnslu í norður íshafi geti átt sér stað. Með úrskurðinum vísaði héraðsdómstóllinn í höfuðborginni Osló frá kæru grænfriðunga sem héldu því fram að olíuleitin bryti í bága við stjórnarskrárbundinn rétt íbúa landsins til heilbrigðs umhverfis.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á sínum tíma hefði það getað stöðvað alla olíuleit við strendur Noregs til langrar framtíðar og sett fjölda starfa í hættu ef kæran hefði náð fram að ganga.

Úrskurður dómstólsins kvað um að umhverfissinnahóparnir sem stóðu að málsókninni þyrftu að greiða lögfræðikostnað ríkisins, 580 þúsund norskar krónur, eða sem samsvarar 7,5 milljón íslenskum krónum. Grænfriðungar segjast ætla að ákveða hvort þeir áfrýi innan tveggja vikna að því er Reuters greinir frá.

Vísaði úrskurðurinn frá röksemdarfærslu grænfriðunga um að Noregur þyrfti að bera ábyrgð á gróðurhúsalofttegundunum sem kæmu frá þeirri olíu og gasi sem landið myndi flytja út til annarra landa. Jafnframt segir í úrskurðinum að áhættan af olíuborun á norðuríshafinu væri takmörkuð.

Norsk stjórnvöld sögðu það rangt að reyna að vísa í stjórnarskrána í stað þess að horfa til skatta og reglna sem væru í gildi til að takmarka gróðurhúsaáhrifin.