Á kröfuhafafundi Kaupþings, sem haldinn verður á morgun, munu kröfuhafar búsins meðal annars greiða atkvæði um að veita Seðlabanka Íslands og íslenska ríkinu ábyrgðarleysi vegna ákvarðana stjórnvalda í tengslum við framkvæmd fjármagnshafta eða greiðslu stöðugleikaframlags svo hægt sé að ljúka slitum búsins með nauðasamningi. Greint er frá þessu í DV.

Þar segir að þetta komi fram í gögnum sem send voru til kröfuhafanna í síðustu viku. Um sé að ræða víðtækt ábyrgðarleysi sem nái til allra ákvarðana, athafna eða afhafnaleysis stjórnvalda við framkvæmd haftanna, fyrirhugaðan nauðasamning Kaupþings, veitingar undanþágu frá höftum og stöðugleikaframlags kröfuhafa.

Tíu milljarða trygging fyrir slitastjórnina

Þá er einnig greint frá því að slitastjórn Kaupþings muni fara fram á að kröfuhafar búsins samþykki ályktun um að settur verði á fót sérstakur sjóður í evrum að jafnvirði tíu milljarða króna í því skyni að tryggja meðlimum slitastjórnarinnar skaðleysi vegna mögulegra málsókna í tengslum við ákvarðanir og störf hennar.

Fjárhæð skaðleysissjóðsins á að nema 70 milljónum evra til að byrja með og getur líftími sjóðsins verið allt að tólf ár.