Útgerðarmenn segja að sjómenn hafi á fundi sínum á föstudag komið fram með nýja kröfu um rannsókn á fiskverði erlendra uppsjávarskipa.

Þetta kemur fram í fréttabréfi sem Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi sendu félagsmönnum sínum, en sjómenn segja félagið hafa brotið fjölmiðlabann Ríkissáttasemjara með því að senda út fréttabréfið að því er segir í Morgunblaðinu í dag.

Viljaleysi til að ná farsællri lendingu

„Hin nýja krafa hefur ekki komið til umræðu áður," segir í fréttabréfinu. „Framlagning hennar er því með öllu ábyrgðarlaus og síst til þess fallin að færa aðila nær kjarasamningi.

Þessi ákvörðun sjómannasamtakanna sýnir í verki algert viljaleysi til að ná farsælli lendingu í kjaraviðræðum sem eru á viðkvæmu stigi og hafa valdið ómældu tjóni."

Hraðar fækkun í útgerðarflokkum

Í fréttabréfinu segir að kröfur sjómanna feli í raun í sér kröfu um 8% hækkun launa. „Launahlutfall útgerða í dag er um 30-50%," segir þar jafnframt.

„Á frystitogurum, línubátum og dragnótabátum er launahlutfallið nær 50%. Af 10 fiskum sem þessi skip draga að landi fá sjómenn 5 fiska. Hlutfall sem þegar er of hátt verður því enn hærra, með þeim afleiðingum að rekstur verður ekki lífvænlegur til framtíðar.

Fækkun í þessum útgerarflokkur er þegar áhyggjuefni, en henni verður hraðað enn frekar ef fallist er á kröfur sjómanna."