Emmerson Mnangagwe, forseti Zimbabwe hefur verið lýstur sigurvegari forsetakosninganna í landinu sem fram fóru á mánudag með 50,8% atkvæða. Á sama tíma náði þó stjórnarflokkur landsins ZANU-PF tveim þriðju hluta á þingi, sem tryggir víðtæk völd forsetans. Nelson Chamisa, leiðtogi MDC fékk 44,3% atkvæða samkvæmt tilkynningu kosningastjórnar.

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá eru þetta fyrstu þing- og forsetakosningar í landinu eftir 37 ára valdatíð Robert Mugabe. Leiðtogar helsta stjórnarandstöðuflokksins, MDC segjast algerlega hafna niðurstöðunum sem þeir kalla falsaðar, en í gær umkringdi lögreglan höfuðstöðvar flokksins og leituðu að vopnum og tölvum í húsnæðinu.

Vesturlönd vildu frekar byltingarmann en borgaralega samsteypustjórn

Robert Mugabe tók við stjórnartaumunum í landinu, sem þá hét Zimbabwe-Rhodesia, eftir að vesturlönd neituðu að viðurkenna samsteypustjórn hvíta minnihlutans og svarta meirihlutans undir stjórn svartra borgaralegra afla. Eftir stutta borgarastyrjöld milli helstu uppreisnarhópanna, sem studdir voru af sínum hvorum ættbálknum, sameinaði hann uppreisnarhópana í Afríska þjóðarbandalag Zimbabwe - Föðurlandsfylkinging, eða ZANU-PF sem stýrt hefur landinu æ síðan.

Mugabe hafði þá verið leiðtogi skæruliðahópa sem barist höfðu við stjórn hvíta minnihlutans í Rhodesíu, eins og landið hét þá, með hjálp kommúnistaríkja, sérstaklega Kínverja og Norður Kóreu. Efnahagur landsins, sem löngum hefur verið kallað brauðkarfa Afríku, hrundi eftir að Mugabe sneri baki við loforðum sínum til vesturlanda um að hrekja ekki hvíta bændur af jörðum sínum.

Þegar mest var voru hvítir íbúar landsins ríflega 300 þúsund, en eru nú taldir minna en 10% af því. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrr í vikunni hefur stjórnarflokkurinn í nágrannalandinu Suður Afríku nú samþykkt að breyta stjórnarskrá landsins svo hægt sé að taka land af hvítum bændum án bóta líkt og gert var í Zimbabwe.

Fékk rétt nóg til að ekki þarf aðra umferð í forsetakosningunum

Með því að ná yfir helming atkvæða hefur Mnangagwe tryggt að ekki þurfi að kjósa milli efstu tveggja manna. Krókudíllinn, eins og hann er kallaður vegna þess að hann leiddi krókódílagengið sem réðst á hvíta bændur meðan á borgarastríðinu stóð var löngum einn helsti bandamaður Mugabe og stýrði öryggisráðuneyti landsins lengi vel.

Hann varð þá þekktur vegna hörku sinnar við að berja niður uppreisn minnihlutaættbáls svartra í suðurhluta landsins, en síðan varð hann varaforseti. Síðan tók hann völdin eftir valdarán hersins eins og Viðskiptablaðið sagði frá í nóvember.

Þá lofaði hann frjálsum kosningum en helsti frambjóðandi stjórnarandstöðunnar, Nelson Chamisa frá Hreyfingu fyrir lýðræðisbreytingu, MDC, saka stjórnvöld um að svindla í kosningunum. MDC vann stórsigur í helstu þéttbýlissvæðum landsins, þá sérstaklega í höfuðborginni Harare,  áður hét Salisbury, en þar fékk flokkurinn 71% atkvæða.

Mótmæli stjórnarandstæðinga sem hafna úrslitunum magnast

Mótmæli gegn meintum kosningasvikum hafa farið fram síðustu daga og urðu átök á miðvikudag sem leystust upp í allsherjaróeirðir með ránum og gripdeildum í miðborg Harare. Þá létust að minnsta kosti sex manns í skothríð hersins í Zimbabwe.

Alþjóðlegir eftirlitsaðilar hafa lýst yfir áhyggjum af ýmsum atriðum kosninganna, meðal annars hótunum til kjósenda og að ekki var upplýst um niðurstöður í einstökum kjörstöðum eftir talningu. Stjórnvöld í Evrópu og Bandaríkjunum hafa verið skýr í því að helsta skilyrði þeirra til að lyfta refsiaðgerðum gegn stjórnarherrum í landinu og heimila björgunaraðgerðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins væru frjálsar kosningar.

Hér má lesa fleiri fréttir um þróunina í Zimbabwe: