Heiðar Guðjónsson hagfræðingur og fjárfestir sagði á umræðufundi sem Ungir Fjárfestar og Íslandsbanki héldu á föstudag að „við kæmum aldrei aga á útgjöld hins opinbera nema taka af [ríkinu] seðlaprentvélarnar,“ sem hann sagði búa til agaleysi. Átti hann þar við upptöku erlendrar myntar, sem hið opinbera hefði þar með ekki prentunarvald á, eins og það hefur í dag með íslensku krónuna.

Hann sagði prentunarvaldið búa til of miklar freistingar fyrir hið opinbera. „vegna þess að það er svo freistandi fyrir þá að bjarga einhverjum bönkum, að bjarga einhverjum byggðarlögum, að bjarga einhverjum sveitarfélögum sem eru búin að rasa um ráð fram, þannig að þetta býr til agaleysi.“

Auk Heiðars tóku Ásdís Kristjánsdóttir, hagfræðingur Samtaka Atvinnulífsins, og Tryggvi Þór Herbertsson, doktor í hagfræði, þátt í umræðunum, sem Björn Berg Gunnarsson, fræðslustjóri Íslandsbanka stýrði.

„Þetta hefur aldrei virkað og mun aldrei virka“ sagði Heiðar um krónuna, og sagðist ekki hafa trú á því að hún yrði enn við lýði eftir 20 ár.

Ásdís og Tryggvi svöruðu hinsvegar á þá leið að þau tryðu því að hér yrði krónan ennþá við lýði.

Heiðar sagði kerfið í dag ósanngjarnt; aðeins ákveðnir aðilar hefðu aðgang að erlendu fjármagni á þeim kjörum sem þar bjóðast, en almenningur sæti eftir með krónuna og hátt vaxtastig hennar. „Það eru ákveðnir aðilar sem geta tekið sér lán alþjóðlega, ég get það, og ég get komið með peninga hingað, og þetta eru ekki sanngjarnar leikreglur.“

Hann talaði um myntráð sem hugsanlegan kost. Tryggvi nefndi þá Grikkland og Argentínu sem dæmi um lönd sem hefðu komið illa útúr upptöku annars gjaldmiðils og myntráði. Heiðar sagði þau hinsvegar ekki sambærileg við Ísland. „Við getum horft á það að það eru mismunandi hagkerfi með mismunandi siðferði og uppbyggingu og annað þvíumlíkt og Grikkland og Argentína eru náttúrulega bara á allt öðrum stað heldur en Ísland. Það er ekki hægt að bera þetta saman.“

Ásdís sagði aðamálið ekki hvaða peningamálafyrirkomulag væri við lýði, heldur það að allir fylgdu reglunum. „Það skiptir ekki máli hvaða peningastefnu við búum við. Ef við fylgjum ekki leikreglum mun aldrei ganga að reka peningastefnu. Við teljum að verðbólgumarkmið geti gengið upp, en þá þurfum við að skipta um kúrs og fylgja leikreglum, og það á ekki bara við um vinnumarkaðinn heldur líka um ríkisfjármálin. Það nægir að einn launahópur eða ríkisfjármálin fari úr böndunum og þá höfum við misst tökin, og oftast nær missum við tökin á toppi hagsveiflunnar.“

Tryggvi tók í sama streng. „Aðalatriðið er það að við höfum tök á vinnumarkaðnum, ríkisfjármálin séu í lagi, og það sé meðvitund í því hvernig peningastefnan er rekin.“