Krónan hefur veikst nokkuð frá því að markaðir opnuðu í morgun gagnvart helstu viðskiptamyntum sínum.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um þá voru gjaldeyrishöftin afnumin í gær og því er útflæði peninga nú orðið auðveldara.

Á hlutabréfamarkaði hefur gengi bréfa Icelandair styrkst um 3,35% og Nýherja um 2,40%, en gengi bréfa N1 hefur veikst um 1,74% og Haga um 1,40%.

Lítil breyting hefur orðið á ávöxtunarkröfu skuldabréfa, en þó hefur krafan á óverðtryggð ríkisskuldabréf hækkað um 4-9 punkta, mest á lengri bréfum.

Þegar þetta er skrifað hafa gjaldmiðlarnir styrkst sem hér segir gagnvart krónu:

  • Bandaríkjadalur um 3,45% og er kaupgengi hans nú 111,20 krónur.
  • Evran um 3,48% og er kaupgengi hennar nú 118,66 krónur.
  • Breskt sterlingspund um 4,0% og er kaupgengi þess nú 135,85 krónur.
  • Japanskt jen um 3,93% og er kaupgengi þess nú 0,9705
  • Dönsk króna um 3,47% og er kaupgengi hennar 15,962
  • Sænsk króna um 3,92% og er kaupgengi hennar 12,394
  • Norsk króna um 3,90% og er kaupgengi hennar 12,978
  • Svissneskur franki um 3,72% og er kaupgengi hans 110,35 krónur.