Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, segir íslensku krónuna líklega aldrei aftur verða algerlega fljótandi á ný í viðtali við Bloomberg fréttastofuna .

Helsti lærdómurinn af hruninu

Segir hann það einn helsta lærdóminn af efnahagshruninu 2008, að leyfa aldrei aftur þá stöðu að koma upp að erlendir fjárfestir geti nýtt sér hærri vexti í landinu til fljótfengins gróða.

Sagði hann að þeir sem vildu fjárfesta í landinu þyrftu að hafa langtímahag af efnahagsþróun landsins í viðtali við fréttastofuna.

Hæstu stýrivextir vestur Evrópu

Innflæði fjármagns, sem landið stæði nú frammi fyrir, er ákveðin áskorun að hans mati, en íslenska krónan hefur styrkst mikið á síðustu tveimur árum. Þrátt fyrir að hafa lækkað stýrivexti séu þeir enn hæstir í allri vestur Evrópu.

„Áskorunin nú er að finna gott jafnvægi fyrir krónuna á frjálsum markaði,“ sagði Bjarni. „Þegar ég tala um stöðugleika, er ég að tala um að finna leið til að létta af gjaldeyrishöftunum á sama tíma og við höldum lægri vöxtum, viðhalda lágri verðbólgu, háu atvinnustigi og almennri samkeppnisstöðu Íslands.“

Þjóðhagsvarúðartæki eins og bindiskylda nauðsynleg

Það þýðir að við verðum ekki aftur með alveg fljótandi krónu líkt og fór svo illa með krónuna í efnahagshruninu 2008, segir hann.

„Við munum ekki hafa gjaldeyrishöft líkt og við höfum séð síðan 2008,“ sagði Bjarni þó, heldur verða aðgerðirnar að mestu í formi þjóðhagsvarúðartækja og vísar þá til reglna Seðlabankans um bindiskyldu 40% erlends fjármagns sem kæmi til landsins í að minnsta kosti eitt ár.

Gjaldmiðillinn á að endurspegla hagkerfið

„Þetta eru þau tæki sem ég sé fram á að við þurfum að treysta á,“ sagði hann. „Þá þurfum við ekki að hafa jafnmiklar áhyggjur af því að leyfa gjaldmiðlinum að fljóta eins og við núverandi höft.“

„Því í lok dagsins viljum við að gjaldmiðillinn endurspegli hvað sé að gerast í hagkerfi landsins,“ er haft eftir Bjarna í viðtalinu sem fór fram á miðvikudag.