*

mánudagur, 23. október 2017
Erlent 30. júlí 2012 15:04

Krónan of hátt skráð

Miðað við stöðu Íslands í Big Mac vísitölunni þarf íslenska krónan að veikjast umtalsvert gagnvart helstu gjaldmiðlum heims.

Ritstjórn
Edwin Roald Rögnvaldsson

Íslenska krónan er of hátt skráð miðað við stöðu Íslands í hinni svokölluðu Big Mac vísitölu. Þetta kemur fram í markaðspunktum greiningardeildar Arion banka.

Eins og varla hefur farið framhjá nokkrum er McDonalds þó ekki lengur hér á Íslandi. Greiningardeildin greip því til þess ráðs að nota verð Metro borgara hér á Íslandi til viðmiðunar.

Big Mac vísitalan byggir á því að Big Mac hamborgar McDonalds eigi að vera eins í öllum löndum. Hann ætti því að kosta það sama hvar sem neytandinn er staddur. „Rétt“ gengisskráning ætti þá að vera þannig að þetta lögmál haldi, en frávik eru túlkuð þannig að gjaldmiðlarnir séu rangt skráðir.

Miðað við útreikninga Arion banka þarf krónan að veikjast umtalsvert gagnvart helstu gjaldmiðlum heims til þess að hamborgaraverð í þeim löndum verði hið sama og hér á landi í krónum talið.

Greiningardeildin setur einnig þann fyrirvara á útreikningana að í þeim kunniað vera skekkja vegna þeirrar staðreyndar að löndin séu misrík. Verðlag hefur tilhneigingu til að vera hærra í ríkum löndum en fátækum og því hugsanlegt að verðmunur hamborgaranna stafi fyrst og fremst af mun á landsframleiðslu en ekki endilega gengisskráningu. Eftir leiðréttingu fyrir slíkum áhrifum stendur þó eftir sama niðurstaða og áður og dregur greiningardeildin því þá ályktun að gengi krónunnar sé of hátt skráð um þessar mundir.

Heimild: Markaðspunktar greiningardeildar Arion banka.