*

föstudagur, 26. apríl 2019
Innlent 31. janúar 2018 16:00

Krónan í samfloti með evrunni

Hagfræðingur Gamma segir að gengisvísitalan segi ekki alla söguna þegar kemur að gjaldeyrismarkaði á síðasta ári.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Gengi krónunnar endaði nánast á sama stað í lok síðasta árs og það var í byrjun þess árs. Á mælikvarða gengisvísitölu lækkaði krónan aðeins um 0,7% á árinu. Hafsteinn Gunnar Hauksson, hagfræðingur Gamma í London, segir í grein sem birtist í Vísbendingu að sá samanburður byrgi sýn á ákveðnar breytingar sem hafa átt sér stað á gjaldeyrismarkaði.

Hafsteinn Gunnar segir að þótt gengi krónunnar sé svo til óbreytt að meðaltali þá styrktist krónan til dæmis nokkuð gagnvart bandaríkjadal eða um 8% en veiktist á móti um 5% gagnvart evrunni. Ástæðuna þar að baki segir hann vera að skiptigengi evru og bandaríkjadals hafi tekið miklum breytingum á árinu sem leið en evran hækkaði töluvert gagnvart dollar.

Að hluta hafi dalurinn veikst vegna vaxandi efasemda um Donald Trump sem gefið hefur verið heitið „Trump slump“ vestanhafs.

„Jafnvel þótt þessi þróun hafi ekkert með Ísland að gera, þá endurspeglast hún að fullu í gengi krónunnar gagnvart myntunum tveimur, vegna þess sem kallað er þríhliða jafnvægi (e. triangular parity) milli gjaldmiðla, og heldur nánast alltaf. En hvað ræður því hvernig gengi krónunnar þróast gagnvart evru og dal þegar gengi myntanna breytist mikið innbyrðis, eins og á árinu 2017? Af hverju var styrking krónunnar t.a.m. meiri gagnvart dalnum en veikingin gagnvart evru?“ spyr Hafsteinn.

Hann svarar því í næstu efnisgrein og segir: „Einhver gæti haldið að það sé tilviljun háð, en staðreyndin er sú að flestir gjaldmiðlar heims raða sér á eins konar dollar-evru ás, og „fljóta með“ annarri myntinni gagnvart hinni á kerfisbundinn hátt. Langflestar sjálfstæðar myntir í Evrópu eru til dæmis í samfloti með evrunni, en það merkir að þegar evran styrkist mikið gagnvart bandaríkjadal – eins og á árinu 2017 – þá hafa þær tilhneigingu til að styrkjast einnig á móti dalnum, frekar en veikjast á móti evrunni.“

Svo sé einnig með íslensku krónuna sem samfljóti með evrunni. Ef bandaríkjadalur veikist því um 1% gagnvart evru þá styrkist krónan um 0,8% gagnvart dal en veikist um 0,2% gagnvart evru. Samflot krónunnar með evru valdi því jafnframt að flökt bandaríkjadals gagnvart krónu er meira en flökt evrunnar þar sem dalurinn beri aðlögunina þegar krossinn á milli evru og dals tekur breytingum. 

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim