Í dag er einn mánuður frá því að fjármagnshöftin voru losuð. Þrátt fyrir talsvert flökt í gengi krónunnar hefur gengið þó lítið breyst undanfarinn mánuð.

Föstudagurinn 10. mars var síðasti virki dagurinn á gjaldeyrismarkaði áður en tilkynnt var um fyrirhugaða losun fjármagnshafta á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum þann 12. mars. Frá þeim tíma hefur krónan veikst um 3,64% (miðað við vísitölu meðalgengis með þrönga viðskiptavog, sem Seðlabanki Íslands heldur utan um). Frá því að höftin voru losuð þann 14. mars hefur krónan hins vegar veikst um aðeins 0,06%.

Gengisvísitala krónunnar stóð í 152,23 við lokun markaða síðastliðinn miðvikudag. Daginn sem höftin voru losuð stóð vísitalan í 152,14 og í upphafi árs var hún í 152,89. Í janúar veiktist krónan um 4,14%. Í febrúar styrktist hún um 8,52%. Í mars veiktist hún aftur um 6,87%, en það sem af er aprílmánuði hefur krónan styrkst um 1,70%.

Gengisvísitala krónunnar 2017
Gengisvísitala krónunnar 2017
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Á blaðamannafundi forsætisráðherra, fjármálaráðherra og seðlabankastjóra sunnudaginn 12. mars, þar sem tilkynnt var um fyrirhugaða losun hafta, sagðist Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra vonast eftir því að gengi krónunnar myndi veikjast í kjölfar afnáms hafta, þó ómögulegt væri að spá fyrir um gengissveiflur krónunnar.

Mánuði eftir þessa tímamótaaðgerð er þó ljóst að gengi krónunnar hefur lítið breyst. Ýmsar ástæður kunna að vera fyrir því. Innflæði fjármagns hefur verið mikið (þó ekki á skuldabréfamarkað, þar sem enn eru höft í formi bindingarskyldu Seðlabankans) á sama tíma og innlendir fjármagnseigendur hafa farið hægt af stað í erlendum fjárfestingum. Þá eru fjárfestingartækifæri innanlands góð og vaxtamunur talsverður, en á erlendum mörkuðum ríkir mikil óvissa, vextir eru þar í sögulegu lágmarki og þensla á eignamörkuðum.