Þrátt fyrir að gert sér ráð fyrir að 2,3 milljónir erlendra ferðamanna komi til landsins í ár, sem er 530 þúsunda aukning frá því í fyrra, hyggst Bílaleiga Akureyrar ekki fjölga bílum í ár. Stærð bílaflotans á síðasta ári var á bilinu 4.500 bílar til 4.600 bílar.

„Við ætlum að halda sama flota á milli ára," segir Steingrímur Birgisson, forstjóri Bílaleigu Akureyrar. „Við munum meira að segja að kaupa færri bíla í ár en í fyrra. Við erum einfaldlega að gera þetta vegna styrkingu krónunnar. Okkur líst illa á þróunina og ætlum að hafa vaðið fyrir neðan okkur. Við ætlum að bæta nýtingu flotans og vera þá bara fullbókuð í sumar ef svo ber undir en við ætlum ekki að elta toppinn ef svo má að orði komast."

Steingrímur segir að þetta sé í fyrsta skiptið í mörg ár sem Bílaleiga Akureyrar stækki ekki bílaflotann. "Þetta er í fyrsta skiptið frá árinu 2009 sem við erum ekki að auka við okkur." Hann segir að þó sterk staða krónunnar hafi ekki áhrif á komur erlendra ferðamanna til landsins á þessu ári hafi hún nú þegar haft gríðarleg áhrif á afkomu greinarinnar.

„Afkoman er í flestum tilfellum fokin út um gluggann. Hjá okkur hefur styrking krónunnar haft mikil áhrif. Við verðleggjum okkur í evrum en allur kostnaður er í krónum. Þegar við horfum á að pundið þá hefur krónan á einu ári styrkst um 38% gagnvart því og 20% gagnvart evru. Það gefur augaleið að við getum hækkað gjaldskrána til samræmis við það því þá er kúnninn einfaldlega farinn. Við erum að reyna að verja okkur gegn þessu með því að skuldsetja okkur eitthvað í erlendum gjaldmiðli. Þetta gátum við ekki gert í fyrra, eða árin þar á undan, vegna haftanna en sem betur fer getum við gert það núna."

Hertz fer varlega

Sigfús B. Sigfússon, forstjóri Hertz, segir að þar á bæ hyggist fólk stíga frekar varlega til jarðar í bílakaupum á þessu ári. Hertz er þriðja stærsta bílaleiga landsins en flotinn taldi um 2.500 bíla á síðasta ári. Sigfús segir að líklega muni fyrirtækið fjölga bílum 5 til 10% á þessu ári, sem sé minna en undanfarin ár þegar flotinn hafi stækkað um um það bil 15% milli ára.

„Við erum heldur að draga úr," segir Sigfús. „Við viljum bara fara rólega í þetta allt saman — ganga hægt um gleðinnar dyr."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .