Íslenska krónan hélt áfram að styrkjast í maí. Miðað við gengisvísitölu (þrönga viðskiptavog) styrktist krónan um 4,9% í mánuðinum.

Gengi krónunnar gagnvart evru var 115,75 kr. þann 2. maí en var 111,32 kr. í lok mánaðarins og styrktist krónan því um 3,8% gagnvart evru í maí. Gengi krónunnar gagnvart Bandaríkjadollar var 106,04 kr. í byrjun mánaðarins en stóð í 99,28 kr. í lok þess, og styrktist krónan því um 6,4% gagnvart dollarnum. Gengi krónunnar gagnvart breska pundinu var 137,06 kr. í byrjun maí en styrktist um 6,9% og stóð í 127,56 kr. í lok mánaðarins.

Krónan hefur styrkst um 9,4% frá áramótum. Frá 10. mars, síðasta virka deginum á gjaldeyrismarkaði áður en tilkynnt var um fyrirhugaða losun fjármagnshafta, hefur krónan styrkst um 6%. Frá því að fjármagnshöftin voru losuð þann 14. mars hefur krónan styrkst um 9,2%.