Það sem af er ári hefur íslenska krónan veikst nokkuð gagnvart helstu gjaldmiðlum erlendum. Ef tekið er mið af miðgengi samkvæmt gengisskráningu Seðlabanka Íslands hefur krónan veikst um 3,39% gagnvart Bandaríkjadal frá árslokum 2016, um 1,81% gagnvart breska pundinu, um 2,98% gagnvart evru og 2,99% gagnvart dönsku krónunni.

Keypti gjaldeyri fyrir 386 milljarða

Seðlabankinn hefur sent frá sér yfirlit yfir gjaldeyrismarkaðinn árið 2015. Kemur þar meðal annars fram að bankinn hafi keypt meiri gjaldeyri flesta mánuði ársins 2016 en árið áður, þ.e. alla nema í ágúst, september og desember. Mest keypti bankinn í október, 49,6 milljarða króna, en minnst í desember, 17,8 milljarða.

Í júní, júlí og ágúst námu gjaldeyriskaup Seðlabankans samtals um 120 milljörðum króna. Á síð- ustu vikum ársins dró úr gjaldeyrisinnflæðinu og í desember keypti Seðlabankinn minna af gjaldeyri en í sama mánuði árið 2015 og gengi krónunnar lækkaði lítils háttar.

Gjaldeyrisinnstreymi á árinu 2016 var mikið, velta á gjaldeyrismarkaði jókst og gjaldeyrisforði Seðlabankans stækkaði talsvert. Velta á millibankamarkaði með gjaldeyri jókst um 42% frá fyrra ári og var hlutur Seðlabankans 55%.
Seðlabankinn keypti gjaldeyri af viðskiptavökum fyrir 386 milljarða króna og jókst gjaldeyrisforði Seðlabankans um 163 milljarða króna, einkum vegna hreinna gjaldeyriskaupa Seðlabankans, og nam í árslok 815 milljörðum.

Í frétt Seðlabankans segir að þrátt fyrir umfangsmikil gjaldeyriskaup Seðlabankans hafi gengi krónunnar hækkað um 18,4% á árinu, en það var þó farið að lækka lítils háttar undir lok ársins. Mest hækkaði gengi krónunnar í október, um 3,5%, en lækkaði mest í apríl, um 0,6%.

Um 20% munur var á hæsta og lægsta skráða gengi ársins. Það var hæst snemma í desember (gengisvísitala 159,99) en lægst í janúar (gengisvísitala 192,01). Daglegt flökt gengisins var 3,8% á ársgrunni árið 2016, en var um 3,3% árið 2015.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .