Á síðasta ári veiktist íslenska krónan um 6,4%, og er það annað árið í röð sem krónan veikist, eftir miklar hækkanir síðustu fjögur ár þar á undan að því er fram kemur í Hagsjá Landsbankans . Nam veiking krónunnar árið 2017 þó ekki nema 0,7%, en styrkingin þar á undan var sú mesta í íslenskri hagsögu frá upphafi mælinga, árið 1992.

Sú mynt sem styrktist mest gagnvart krónu á síðasta ári var japanska jenið, sem styrktist um 13,9%, en þar á eftir kom Bandaríkjadalur með 11,4%. Í desember lækkaði raungengi krónunnar um 8,9%, en Viðskiptablaðið hefur fjallað um veikinguna og þá styrkingu sem varð svo undir lok ársins á ný.

Þrátt fyrir lækkunina á síðasta ári er raungengi krónunnar þó sterkt ef horft er aftur til ársins 1980, og var það sterkara í desember en 80% af tímanum síðan þá. Þá var raungengið 90,2 stig en lægst fór það í 58,4 stig í nóvember 2008.

Veltan og inngripin mun minni en áður

Heildarveltan á gjaldeyrismarkaði á síðasta ári nam 187,2 milljörðum króna, sem er töluvert minni velta en árið 2017 þegar hún nam 407,1 milljarði. Ef miðað er við veltuna utan inngripa Seðlabankans þarf að horfa aftur til ársins 2014 til að finna minni veltu en á síðasta ári á gjaldeyrismarkaði.

Inngripin námu þó einungis 3,7 milljörðum en árið áður, 2017 höfðu þau numið 83 milljörðum og 386,2 milljörðum árið 2016. Telur Landsbankinn líklegt að inngripin verði töluvert meiri þó í ár, enda hefur verið ákveðið að viðskipti með þær 84 milljarða aflansdskróna sem enn eru bundin höftum verði gerð frjáls.

Hefur Seðlabankinn sagt að útflæði þessara krónueigna verði þó ekki leyft að veikja krónuna, en bankinn hefur margfalda þessa upphæð til að mæta þessu útflæði.