Juergen Kudritziki hefur nú verið ráðinn framkvæmdastjóri Marorku. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu á vefsíðu Marorku.

Hann hefur 25 ára reynslu af skipaiðnaðinum og hefur meðal annars starfað sem forstöðumaður tæknimála hjá E.R. Schiffart, auk þess sem hann hefur starfað sem forstjóri BestShip - dótturfélags E.R. Schiffart, sem sérhæfir sig í breytingum á skipum og umbótum á kerfum þeirra.

Juergen hefur þá einnig starfað fyrir Blue Star og Komrowski. Áður starfaði hann svo hjá MAN B&W. Í fréttatilkynningu segir þá einnig að Juergen hafi lengi sérhæft sig í málum orkuskilvirkni. Juergen tekur við starfinu af Ole Skatka Jensen, sem hefur verið starfandi framkvæmdastjóri Marorku síðustu tvö ár.

Marorka er íslenskt fyrirtæki sem hannar og þróar orkumælingarbúnað sem á að auka skilvirkni orkuneyslu og því ýta undir sparneytni alls konar skipa sem sigla um höfin.