Japanski seðlabankinn tilkynnti í nótt um að ekki yrði aukið við magnbundna íhlutun bankans. Ákvörðun seðlabankastjórans, Haruhiko Kuroda, kom allflestum á óvart, og sérstaklega fjárfestum í Japan, sem hafa brugðist harkalega við á hlutabréfamarkaðnum sem féll um 3,2% í nótt. Japanska yenið styrktist þá einnig um 2,6% í einni svipan. Fréttastofa Bloomberg greinir frá þessu.

Í stjórnarsetu sinni hefur Kuroda staðið að umfangsmikilli magnbundinni íhlutun (e. quantitative easing), sem felst í því að seðlabankinn kaupir skuldabréf í þeim tilgangi að ýta undir flæði fjármagns í hagkerfinu. Síðan hann tilkynnti um íhlutunaráætlun sína árið 2013, se hefur verið kölluð “basúkkan”, hafa markaðir hækkað um 33%.

Hagfræðingar höfðu búist við því að Kuroda myndi auka við íhlutunina og markaðir einnig - TOPIX og Nikkei vísitölurnar höfðu hækkað talsvert á síðustu dögum og yenið hafði lækkað umtalsvert. Þó eru skiptar skoðanir varðandi ákvörðun Kuroda. Meðan mörgum finnst hún neikvæð telja aðrir að ótímabært sé að bæta við íhlutunina eins og staða japanskra markaða er í dag.