Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins er ekki par hrifinn af nýjasta pistli blaðamanna Fréttablaðsins aftan á blaðinu, en þar fer Þórarinn Þórarinsson yfir tengingu sína við Framsóknarflokkinn sem hann hafi reynt að sverja af sér alla sína ævi.

Hefst pistillinn á því blaðamaðurinn segist hafa haft flokkinn á bakinu alla ævina og að hann sé orðinn æði þreyttur á honum og tengir stjórn hans á árunum 1971 til 1991 við uppvöxt sinn á þeim árum. „Orsakasamhengið er augljóst og ég kenni flokknum, frekar en sjálfum mér, um að ég er þunglyndur alkóhólisti og útbrunninn blaðamaður,“ segir Þórarinn sem er af miklu framsóknarfólki kominn.

„Ég bara fæddist inn í flokkinn! Mér var strítt í æsku og fyrsti tengdapabbi minn úrskurðaði mig ónýtan til undaneldis. Kærði sig ekki um barnabörn sem bæru hinn arfgenga og ólæknandi framsóknarvírus.“ Í lokinn segist hann að nú sé komið að því að gefa Framsóknarflokknum frí, fyrir sjálfan sig og þjóðina. Þetta tekur Sigurður Ingi fyrir á facebook síðu sinni.

„Hversu lágt er hægt að leggjast í skrifum þegar menn tala um að útiloka stjórnmálaafl, fjöldahreyfingu,12.000 manns frá því að eiga þátt í að móta sameiginlega framtíð okkar Íslendinga?,“ spyr Sigurður Ingi á facebook síðu sinni.

„Hvar er umburðarlyndið fyrir ólíkum skoðunum og lífsviðhorfum? Hvert erum við eiginlega komin sem þjóð þegar baksíða þess blaðs, sem auglýsir sig „sem mest lesna blað landsins“ birtir grein um að „losna við“ slíka fjöldahreyfingu. Hvaða hóp á næst að „losna við“?“ Segir Sigurður það dapurlegt að sjá að ekki sé pláss fyrir fjölbreytt samfélag sem byggi á lýðræðislegum vinnubrögðum.