Meðallaun kvenkyns forstjóra fyrirtækja í S&P 500 vísitölunni voru tæplega 19% hærri en laun karlkyns forstjóra á síðasta ári. Þetta kemur fram í frétt Wall Street Journal . Meðallaun þeirra kvenna sem gegna forstjórastöðu voru 13,8 milljónir dollara á meðan meðallaun karlanna voru 11,6 milljónir.

Þrátt fyrir að meðallaun kvenna séu hærri en karlanna, hallar verulega á fjölda kvenna í forstjórastöðum. Einungis 21 fyrirtæki af þeim 500 sem eru í S&P vísitölunni hafa konu í brúnni sem þýðir að þær eru einungis 5% af heildarforstjórunum.

Í grein Wall Street Journal kemur jafnframt fram að þau fyrirtæki sem var stýrt af konum skiluðu 18,4% ávöxtun til fjárfesta sinna á síðasta ári samanborið við 15,7% ávöxtun karlkyns forstjóra.

Er munurinn á árangrinum talinn skýra muninn í launum. Segir sérfræðingur hjá ráðningafyrirtækinu Hay Group  að stjórnir fyrirtækja sem skila fjárfestum frábærri ávöxtun og árangri í rekstri séu alltaf líklegri til að greiða forstjórum sínum hærri laun án tillits til kyns forstjórans.