Fjárfestingarbankinn Kvika hf. hagnaðist um 378 milljónir króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta kemur fram í árshlutareikningi bankans. Bankinn hefur verið í mikilli sókn og hefur til að mynda undirritað samstarfssamninga við tvö alþjóðleg eignastýringarfyrirtæki á árinu. Um er að ræða T. Rowe Price og Wellington Management, en félagið hefur einnig verið í samvinnu við Credit Suisse í hátt í 12 ár.

Hreinar rekstrartekjur Kviku námu 2.164 milljónum króna á tímabilinu, en þær námu 2.535 milljónum króna á seinni helmingi 2015. Rekstrarkostnaður bankans hefur lækkað í takt við áætlun og nam því 1.668 milljónum króna á tímabilinu. Um er að ræða 13% lækkun frá seinni helmingi 2015 að teknu tilliti til samrunakostnaðar á fyrra tímabili.

Eignir aukast milli tímabila

Heildareignir samstæðunnar námu í lok júní 77.825 milljónum króna og hafa þær því hækkað all verulega frá seinni helming síðasta árs, en þá námu þær 61.614 milljónum króna. Hækkunin á tímabilinu nemur því um 26%.

Útlán til viðskiptavina námu 23 milljörðum króna í lok júní. Almenn innlán og peningamarkaðsinnlán jukust um rúma 14 milljarða króna og hefur bankinn einnig náð að bæta kjör á fjármagnsmarkaði.

Arðsemi eiginfjár Kviku banka var 12,3% á fyrsta helmingi ársins. Eiginfjárhlutfallið var 18,0%, samanborið við 23,5% í árslok 2015. Lækkunin er samkvæmt tilkynningu bankans í samræmi við áætlun og skýrist að miklu leyti af lækkun hlutafjár sem samþykkt var á hluthafafundi fyrr á árinu.

Bankinn fremstur í flokki

Lausafjárstaða Kviku telst einnig frekar sterk og hefur bankinn farinn að gera sig líklegan til þess að takast á við mögulegt fjárútflæði í kjölfar afnáms fjármagnshafta.

Breska fjármálatímaritið World Finance viðurkenndi Kviku á árinu sem fremsta banka og fjármálafyrirtæki á sviði eignastýringar á Íslandi. Bankinn hefur verið umsvifamikill í viðskiptum með skuldabréf og nam heildarvelta með skuldabréf um 329 milljörðum króna á tímabilinu. Um er að ræða allt að 22% af heildarviðskiptum tímabilsins.

Bankinn hefur einnig unnið að skýrslu um þjóðhagslega hagkvæmni sæstrengs til Bretlands, í samstarfi við ráðgjafafyrirtækið Pöyry. Auk þess sem hann sá um ráðgjafastörf við sölu á 40% hlut í Iceland Seafood International.