Nasdaq tilkynnir að í dag hófust viðskipti með hlutabréf Kviku banka hf. á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland. Kvika banki tilheyrir fjármálageiranum og er fyrsta félagið sem tekið er til viðskipta á Nasdaq Iceland í ár. Félagið var áður skráð á Nasdaq First North og er ellefta félagið sem tekið er til viðskipta á mörkuðum Nasdaq Nordic í ár. Nasdaq Iceland greinir frá þessu í fréttatilkynningu.

Kvika er sérhæfður banki sem er leiðandi í eignastýringu og fjárfestingarstarfsemi. Tekjusvið bankans eru eignastýring, fyrirtækjaráðgjöf, fyrirtækjasvið og markaðsviðskipti. Kvika veitir fyrirtækjum, fjárfestum og einstaklingum víðtæka fjárfestinga- og eignastýringarþjónustu, auk valinnar sérhæfðrar bankaþjónustu. Eignastýring Kviku hefur áunnið sér traust orðspor og býður upp á þjónustu í öllum helstu eignaflokkum, þ.m.t. skuldabréfum, hlutabréfum og sérhæfðum fjárfestingum, á innlendum og erlendum mörkuðum. Kvika er með aðild að kauphöllum Nasdaq á Íslandi, í Stokkhólmi og Kaupmannahöfn. Höfuðstöðvar bankans eru í Reykjavík.

„Fyrsta ár Kviku á Nasdaq First North markaðnum var afar vel heppnað," sagði Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku banka. „Fjárhagsleg staða okkar er traust og mun rekstur félagsins eflast með kaupunum á GAMMA Capital Management sem voru gerð fyrr í þessum mánuði. Auk þess hefur hluthöfum í fyrirtækinu fjölgað til muna þannig að næsta eðlilega skref er að skrá félagið á Aðalmarkaðinn. Þetta eru spennandi tímar fyrir félagið og hluthafa þess."

„Við bjóðum Kviku banka hjartanlega velkominn á Aðalmarkaðinn," sagði Páll Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland. „Kvika hefur aðeins verið á Nasdaq First North markaðnum í eitt ár en sýndi fljótt getu sína til vaxtar. Félagið er gott dæmi um hvernig hægt er að vaxa á Nasdaq First North áður en skrefið er tekið yfir á Aðalmarkaðinn fyrir frekari vöxt og sýnileika. Kvika er fyrsta félagið sem er skráð á Aðalmarkað Nasdaq Iceland í ár. Við hlökkum til að styðja við félagið á leið þess fram veginn."